Kveðja frá formanni,

Kæru félagskonur Kvenna í sjávarútvegi, nú er nokkuð liðið á annað starfsárið okkar sem hefur gengið vel til þessa.
Fyrsta starfaárið gekk vonum framan og hefur félagskonum fjölgaði um þriðjung milli starfsára.

Fram til þessa höfum við farið í sjö fyrirtækja heimsóknir og tvær dagsferðir, önnur var til Grindavíkur á vordögum 2014 og hin til Vestmannaeyja, haustið sama ár. Þann 8.maí næstkomandi er komið að þriðju dagsferðinni okkar þar sem ferðinni er heitið á Snæfellsnesið. Fyrirtækin sem heimsótt verða eru Marz Seafood, Hraðfrystihúsið á Hellisandi, Soffanías Cecilsson, Guðmundur Runólfsson og KG fiskverkun á Rifi og verður því um margt að fræðast.

Eitt af markmiðum félagsins sem sett voru í upphafi var að gera konur sýnilegri innan sjávarútvegsins. Við höfum unnið að því jafnt og þétt frá upphafi en nú er kominn tími á að gera enn betur. Fyrsta skrefið í þá átt er að varpa ljósi á núverandi stöðu. Undanfarna mánuði hefur stjórnin því unnið að undirbúningi rannsóknar hvers markmið er að greina aðkomu kvenna í sjávarútvegi með það að leiðarljósi að kortleggja tækifæri til vaxtar fyrir sjávarútveg með aukinni þátttöku og eflingu kvenna innan greinarinnar. Verkefnið hefur þegar verið kynnt fyrir stærstu haghöfum útvegsins m.a. á stofnfundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi í nóvember og hlotið góðar undirtektir. Búið er að velja aðila til að framkvæma rannsóknina fyrir hönd félagsins og kostnaður liggur jafnframt fyrir. Meðfram undirbúningum og kynningu verkefnisins hefur verið unnið að fjármögnun og hefur þegar fengist ein milljón króna frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu en beðið er svara frá öðrum sjóðum og fyrirtækjum sem leitað hefur verið til. Um leið og fjármögnun verkefnins er komin vel á veg munum við hefjast handa við rannsóknina. Það eru því spennandi tímar framundan.

Í ár er 100 ára kosningarafmæli kvenna á Íslandi og að því tilefni tökum við þátt í fjölbreyttri dagskrá Reykjavíkurborgar fyrir árið 2015. Í árslok munu Konur í sjávarútvegi í samstarfi við Reykjavíkurborg veita viðurkenningu til nokkurra kvenna í sjávarútvegi sem skarað hafa framúr innan innan sjávarútvegsins. Viljum við með því efla og vekja athygli á aðkomu kvenna í sjávarútvegi og það sem vel er gert.

Þann 17. september næstkomandi verður haldinn aðalfundur félagsins í Húsi sjávarklasans. Ljóst er að einhverjar breytingar verða á stjórn félagsins og hvet ég því þær konur sem hafa áhuga á stjórnastarfi að gefa kost á sér og hafa samband við mig eða aðrar stjórnarkonur

Stefnt er að því að efla starfsemi félagsins enn fremur og ná enn fremur til landsbyggarinnar og við leitum eftir konum sem hafa áhuga á að starfa með stjórn félagsins og öðrum félagsskonum í sinni heimabyggð. Hvetjum við ykkur til að setja ykkur í samband við mig eða aðrar konur í stjórn.

Að lokum vil ég ef þið hafið ábendingar, hugmyndir eða annað um hvað við getum gert fyrir félgaskonur þá bendum við ykkur á að setja ykkur í samband við okkur.

Kær kveðja,
Hildur Sif Kristborgardóttir