Kveðja frá formanni.

Kæru systur í sjávarútvegi. Nýtt starfsár er hafið í félaginu okkar og það er hugur í mannskapnum. Aðalfundur var haldinn 1. október í Húsi sjávarklasans.

Breytingatillaga um að fækka í stjórn úr tíu í átta var samþykkt samhljóða. Í framboði til stjórnar voru ellefu konur, allar flottar og frambærilegar. Það er ánægjuefni að svo margar konur gefi kost á sér til að efla og styrkja félagið okkar. Sitjandi stjórnarkonur sem voru í framboði fengu allar brautargengi til aframhaldandi verka og þrjár nýjar kraftmiklar konur koma inn í stjórnina. Sjá stjórn KIS 2015-2016.

Eitt af meginmarkmiðum félagsins er að efla og styrkja stöðu kvenna innan sjávarútvegsins. Ein af leiðunum sem hefur verið farin er að rannsaka stöðu kvenna í sjávarútvegi. Samið hefur verið við Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri og Capacent um framkvæmd verkefnisins sem hefst á næstu vikum. Fjármögnun hefur gengið vel en betur má ef duga skal og nú reynir á nýja stjórn og samtakamátt félagskvenna og velunnara að klára fjármögnun og framkvæmd.

Framundan er áframhaldandi vöxtur félagsins og vinna við að breiða út boðskapinn. Fyrir ári síðan vorum við undir hundraðinu en erum nú hundrað sextíu og fimm. Með hverri konu sem bætist við vex félagið og tækifæri okkar til tengsla og áhrifa eykst. Við skulum vera sýnilegar og stoltar af okkur sjálfum og félaginu okkar, segja frá og hvetja konur sem við þekkjum til að slást í hópinn. Við skulum nýta tækifærin til að hittast eins og kostur er, kynnast, þekkjast og mynda þannig tengslanet sem nýtist okkur í starfi og leik.

Heimsóknir í fyrirtæki hafa verið hluti af starfinu og verða það áfram. Kærkomið tækifæri til að hittast, auka víðsýni og þekkingu á fjölbreyttum starfsvettvangi innan sjávarútvegs og tengdra greina. Stefnan er að hafa breytilegar tímasetningar, stundum í hádegi og stundum seinni partinn til að tímasetningar henti sem flestum.

Við leitum allra leiða til að þræða tengslanet félagskvenna um allt land og í alla hugsanlega króka og kima. Við vinnum að því að fjölga okkur og styrkja og að ná til þeirra sem eiga erfiðara með að komast til okkar. Við förum til þeirra.

Ferðir sem við höfum farið í til Vestmannaeyja og á Snæfellsnes hafa heppnast vel. Þekking okkar hefur aukist, við höfum kynnst athafnalífi þessara staða og atvinnurekendum, kynnst nýjum konum og fjölgað í félaginu. Við höfum í þessum ferðum gert okkur gildandi sem framfarafélag, stækkað tengslanetiði, eignast vinkonur hver í annari og síðast en ekki síst haft það gaman saman. Framundan eru fleiri ferðir, stefnt er á norðurland í haust og austurlandið í vor.

Heimasíðan okkar er flott en alltaf í þróun http://www.kis.is. Við höfum hug á að gera félagatal með mynd og grunnupplýsingum um félagskonur sem verður aðgengilegt fyrir okkur sjálfar. Facebook er vettvangur til samskipta og upplýsingaveita sem ég hvet ykkur til að nýta ykkur. Við erum bæði með opinbera síðu Konur í sjávarútvegi og lokaða síðu fyrir félagskonur KIS þar sem við sýnum okkur og sjáum hver aðra og getum deilt gagnlegum upplýsingum. Ég hvet ykkur til að tengja ykkur inn á þá síðu okkur öllum til gagns og gamans. Það er undir okkur sjálfum komið hversu sýnilegar við viljum vera á þeim vettvangi en þarna höfum við tæki sem við getum nýtt okkur og er góð leið til að við þekkjumst og tengjumst.

Vinna er hafin við undirbúning að því að heiðra konur fyrir vel unnin störf í sjávarútvegi. Á næsta ári munum við hrinda því í framkvæmd með táknrænum hætti.

Það eru spennandi tímar framundan, það er sannarlega heiður að vera formaður félagsins okkar og stefnan mín er að standa mig í nýju hlutverki. Umgjörðin er til staðar og braut hefur verið rudd. stofnun KIS er framfaraspor í íslenskum sjávarútvegi og samfélaginu í heild. Í félaginu er flott stjórn og flottar félagskonur sem hafa mikið fram að færa. Ég vil hvetja ykkur til að hafa samband ef eitthvað brennur á ykkur og ef að eitthvað má betur fara. Saman náum við markmiðum okkar um að vera bæði sterkari og stærri innan sjávarútvegsins með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.

Með kveðju
Freyja Önundardóttir formaður