Sælar konur í sjávarútvegi,

Kynningarfundur á starfsemi félagsins okkar var haldinn föstudaginn 26 febrúar.

Hér koma upplýsingar sem þar komu fram.

Stjórn kvenna í sjávarútvegi hefur í vetur verið að vinna að stefnumótun fyrir félagið. Við höfum valið nýjar leiðir til að vinna að tilgangi félagsins sem er að styrkja og efla konur í sjávarútvegi ásamt því að gera þær sýnilegri innan iðnaðarins og utan hans.

Við vinnum markvisst að því að vera áhugaverður og eftirsóknarverður félagsskapur fyrir konur í sjávarútvegi um allt land.

Það gerum við með því að auka tækifæri okkar til að hittast, kynnast, fræðast og efla okkur sjálfar.  Við ætlum líka að opna ákveðna viðburði fyrir gestum okkar, áhugasömum konum og körlum til að stækka enn tengslanetið okkar.

Viðburðir verða tíðir og allar ættu að geta fundið það sem hentar þeim best  hvort sem það eru Fyrirtækjaheimsóknir ýmist í hádegi eða seinni part dags.

Kaffistofan sem verður snemma morguns, óformlegt spjall um daginn og veginn þar sem við getum boðið með okkur gestum eða hittingur á Bryggjunni brugghúsi (Akkerið) eftir vinnu fyrsta föstudag í mánuði. Þetta eru viðburðir sem verða hver um sig einu sinni í mánuði yfir vetrartímann.

Viðburðadagatal  kemur til með að verða aðgengilegt inni á heimasíðunni okkar og þar uppfærum við viðburði eins fljótt og kostur er.

Norðurland verður heimsótt í Vorferðinni okkar. Við fljúgum til Akureyrar 19. maí og nýtum daginn vel með viðkomu í fyrirtækjum á leið okkar til Siglufjarðar þar sem við njótum veitinga og gistingar á Hotel Sigló. Daginn eftir er keyrt til Akureyrar, komið víða við og borðað og gist á Icelandair hótelinu. Við hvetjum konur og karla í sjávarútvegi norðan heiða til að koma og hitta okkur og kynnast félaginu. Fyrirtækin sem við höfum haft samband við eru mjög áhugasöm að fá okkur í heimsókn þar má nefna Samherja, Promens, Ramma, Genis og fleiri fyrirtæki. Nákvæm ferðatilhögun kemur seinna. Við reynum að ná sem mestu en pössum líka að hafa svigrúm til að njóta samverunnar. Verð verður birt innan skamms og hefst formleg skráning í framhaldinu.

Á haustmánuðum er fyrirhugað að hafa vinnustofu í þeim tilgangi að efla félagskonur til að koma fram í fjölmiðlum og vera óhræddar við að standa fyrir máli sínu opinberlega. Meira um það síðar.

Við vinnum að því að gera félagatal með myndum og starfsupplýsingum um okkur allar. Þar til það er frágengið hvetjum við ykkur til að skrá ykkur á lokaða síðu KIS á Facebook sem er engöngu ætluð félagskonum.

Rannsóknin okkar um stöðu kvenna í sjávarútvegi er að fara af stað og búið er að fjármagna fyrsta hlutann. En áfram leitum við leiða til að fjármagna í vissu um það að niðurstöður verða konum og sjávarútvegi í heild til framdráttar.

Fyrir hönd stjórnar KIS

Freyja Önundardóttir