Kæru KIS konur. Ég vil byrja á að þakka traustið sem mér hefur verið gefið til að sinna embætti formanns Kvenna í sjávarútvegi. Ég mun gera mitt besta til að fylla það skarð sem Freyja skilur eftir sig. Hún hefur unnið frábært starf á seinustu árum og mig langar að nota tækifærið til að þakka henni fyrir hennar framlag til kvenna í þessari atvinnugrein. Ég tek við af félaginu með mikilli tilhlökkun og hlakka mikið til að vinna með öllum þeim öflugu konum sem eru í félaginu. Það eru mikil tækifæri fyrir félagið til að vaxa og efla enn frekar konur í stéttinni um land allt. Ásamt því að vera öflugur málsvari fyrir þennan fjölbreytta atvinnuveg í samfélaginu.
Ég hef verið að vinna hjá Icelandic og Brim síðustu tvö ár eftir nám erlendis, en ég er 28 ára og búsett í Reykjavík með fjölskyldu minni. Frá unga aldri hef ég verið viðloðandi sjávarútveginn með mismunandi hætti, fyrstu árin bjó ég á Snæfellsnesi þaðan sem fjölskyldan er ættuð og á minningar þaðan sem barn hnýtandi króka á taum með afa. Frá því ég komst á unglingsár hef ég fylgst náið með atvinnugreininni og haft mikinn áhuga á tækifærunum sem felast í nýrri hugsjón.
Sjávarútvegurinn er fjölbreyttur atvinnuvegur þar sem konur eiga að gera sig meira gildandi og það er okkar verkefni að hvetja konur til þess að velja sér þessa atvinnugrein og að styðja við þær þegar þangað er komið. Ég hlakka mikið til komandi starfsárs og er viss um að við getum eflt KIS enn frekar sem öflugan vettvang kvenna í greininni til að hafa áhrif, kynnast og efla hvora aðra.
Agnes Guðmundsdóttir