Ávarp nýs formanns Kvenna í sjávarútvegi

Skemmtilegt starfsár framundan

Kæru félagskonur, það er mér sannur heiður að taka við formennsku í þessu öfluga félagi og halda áfram með góða vinnu. Ég þakka Agnesi fráfarandi formann KIS, fyrir frábært starf á síðastliðnum fjórum árum.  Ég hlakka til að legga mitt af mörkum að efla félagið enn frekar. Félagið er að stækka og er það sérstaklega ánægjulegt að sjá hve mikil aukning hefur verið af konum utan af landi. Sjálf er ég frá Grindavík og hef alist upp við sjávarútveginn alla mína tíð. Undanfarin fimm ár hef ég starfað sem forstöðumaður gæðamála hjá Vísi hf. Það sem heillar mig mest við sjávarútveginn er framsæknin og krafturinn í greininni. Það er mikil tækniþróun og nýsköpun í greininni og hlakka ég til að sjá hana þróast enn meira í framtíðinni.

Á næsta ári verður félagið 10 ára og er hugur í félagskonum og stjórn að gera góða hluti á árinu. Dagskrá vetrarins er að taka á sig mynd og margir áhugaverðir viðbuðir á döfinni.  Félagið er frábær vettvangur fyrir konur til að kynnast greininni betur, efla tengslanet sitt og styrkja sig í starfi.

Við byrjum viðburðaröðina á því að hittast í Hampiðjunni 9.nóvember og  kynnast fyrirtækinu. Í desember mun KIS bjóða félagskonum í  jólaglögg á Vinnustofu Kjarvals þar sem við fáum heimsókn frá leikarahjónunum Gísla og Nínu, þar sem þau fara yfir það helsta við gerð vinsælu þáttana sem eru öllum landsmönnum kunnugir,  Verbúðina. Eftir áramót fáum við m.a kynningu frá Ocean of Data, Marine Collagen og fleiri áhugaverðum fyrirtækjum. Fræðsluerindi fyrir félagskonur verður í febrúar og mun Edda Hermanssdóttir, markaðs- og samskiptastjóri Íslandsbanka, fara yfir það helsta sem hafa þarf í huga þegar  komið er fram, við greinaskrif og ýmislegt annað. En Edda hefur haldið mörg vel sótt námskeið sem nefnist Framkoma og árangur. Við ljúkum starfsári okkar með árlegri vorferð og í ár verður er stefnan sett á sunnanverða Vestfirði og heimsótt m.a Arnarlax.

Sjávarútvegsráðstefnan er á næsta leiti og er yfirskriftin í ár, Konur eru líka í sjávarútvegi. Formaður stjórnar ráðstefnunnar í ár er Hólmfríður Sveinsdóttir. Af þeim 70 fyrirlestrum sem á ráðstefnunni verða eru konur 40% fyrirlesara og af 15 málstofum ráðstefnunnar eru 10 málstofustjórar konur. Ég mæli því með að félagskonur láti sig ekki vanta á ráðstefnuna í ár. Þetta er ánæguleg tölfræði þar sem sjávarútvegurinn hefur í gegnum tíðina þótt heldur karllægur, sem rímar við niðurstöður rannsóknar sem  Rannsóknamiðsöð Háskólans á Akureyri  vann fyrir KIS um stöðu kvenna í sjávarútvegi og birt var fyrr á ári. Við í Félagi kvenna í sjávarútvegi setjum stefnuna á að styrkja stöðu kvenna í greininni og efla sjávarútveginn með því að auka fjölbreytileika innan hans. Við gerum það m.a með því auka sýnileika kvenna í greininni og draga enn fleiri konur að þessari skemmtilegu og fjölbreyttu atvinnugrein sem að sjávarútvegurinn er. KIS mun einnig vera með bás á ráðstefnuni og væri ánægulegt að sjá sem flestar félagskonur kíkja við.

 

Ég hlakka til starfsársins og vænti þess að við félagskonur nýtum þennan vettvang sem jákvætt afl íslenkum sjávarútvegi til framdráttar.

Kveðja

Margrét Kristín Pétursdóttir