Kæru KIS konur.
Það gleður mig að taka við sem formaður þessa kröftuga félags og halda áfram með það flotta starf sem hefur verið unnið undir merkjum Kvenna í sjávarútvegi undanfarinn áratug. Ég ákvað að stíga fram og taka við af Margréti Kristínu Pétursdóttur sem hefur leitt félagið af kostgæfni síðastliðið ár og unnið frábært starf. Ég þakka henni kærlega fyrir sitt framlag en við fáum þó að njóta hennar krafta áfram þar sem hún mun sitja áfram í stjórn félagsins á komandi starfsári. Stjórnina skipa miklar kjarnakonur og ég hlakka til að starfa með þeim og taka höndum saman við að skapa spennandi dagskrá þetta árið.
Þessi atvinnuvegur hefur alltaf heillað mig og ég hef ætíð dregist að öllu sem tengist sjónum. Ég minnist þess að þegar ég fékk bílpróf þá dró ég vinkonurnar í ófáa rúnta niður að höfn að skoða skipin. Fyrir mér hefur sjórinn og allt sem honum tengist alltaf haft mikið aðdráttarafl. En það var fyrir eins konar tilviljun að ég hóf störf í sjávarútvegi fyrir tæpum 14 árum og starfa í dag sem sölustjóri á uppsjávar- og sjófrystisviði Iceland Seafood. Ég hef kynnst mörgum frábærum konum á þeim tíma sem starfa vítt og breytt innan þessa atvinnuvegar. Það er ljóst að konur í íslenskum sjávarútvegi búa að viðamikilli reynslu og að mínu mati er KIS upplagður vettvangur til að sameina okkur innan stéttarinnar og mynda þétt tengslanet sem við svo búum að um ókomna tíð. Þetta félag er mikilvægur hlekkur fyrir okkur til að sækja í viskubrunn hvorrar annarar, ásamt því að viðhalda tengslum og skapa ný innan þessa leiðandi atvinnuvegar á Íslandi.
Á nýliðnum aðalfundi fögnuðum við 10 ára afmæli félagsins sem er merkur og flottur áfangi út af fyrir sig. Félagið hefur svo sannarlega vaxið og dafnað allt frá stofnun þess. Fyrsta starfsárið okkar voru 131 félagskona skráð og hefur heldur betur bæst í hópinn síðustu ár og teljum við hvorki meira né minna en 318 félagskonur í dag. Við getum hins vegar alltaf blómum á okkur bætt og er ég sannfærð um að við eigum eftir að bæta enn við okkur í fjölda félagskvenna í nánustu framtíð
Stjórnin er nú í óða önn við að setja saman áhugaverða og skemmtilega dagskrá fyrir starfsárið. Nú þegar liggur fyrir að við munum fara í heimsókn í Matvælaráðuneytið þann 25. október næstkomandi og hvetjum við sem flestar til að skrá sig þegar við munum senda skráningarhlekk á þann viðburð. Þann 1. nóvember hefur Bacco Seaproducts boðið okkur í heimsókn sem við ætlum að þiggja með þökkum. Ennfremur verður Sjávarútvegsráðstefnan svo haldin í Hörpu dagana 2.-3. nóvember og munu félagskonur vafalaust fjölmenna þar líkt og áður. Áður en KIS konur sigla svo inn í jólaundirbúninginn af fullum krafti ætlum við að gera okkur glaðan dag og hittast í jólaglögg, líkt og heppnaðist svo vel í fyrra.
Að vanda verður starfsárinu lokað með vorferðinni okkar. Á aðalfundinum voru þau áform kynnt að við ætlum að leggja land undir fót og er förinni heitið til Færeyja í þetta skiptið. Sá áfangastaður var valinn í tilefni af 10 ára afmæli KIS til að fagna þeim áfanga rækilega ásamt því að virkilega áhugavert er fyrir KIS konur að kynna sér starfsemi hinna ýmsu sjávarútvegstengdra fyrirtækja í Færeyjum. Margar okkar hafa eflaust komið þangað en enn fleiri hafa mögulega alltaf ætlað sér en ekki farið enn. Þetta er því kjörið tækifæri til að láta drauminn rætast og slást með í för.
Við munum senda út nánari upplýsingar um dagskrá fyrir starfsárið í heild von bráðar ásamt því að óska eftir skráningum fyrir hvern og einn viðburð fyrir sig. Ég hlakka til að sjá ykkur sem allra flestar á komandi viðburðum KIS og er spennt fyrir því að starfa fyrir þetta flotta félag.
Tinna Gilbertsdóttir